Guðrún Árnadóttir frá Lundi

Guðrún Árnadóttir frá Lundi

„En alltaf var þó sagan í huganum“[1]

Guðrún Árnadóttir frá Lundi (3. júní 1887 - 22. ágúst 1975)

Fimmtíu og níu ára kona sendir frá sér fyrstu bók sína og nær strax almenningshylli. Næsta aldarfjórðung sendir hún frá sér 26 skáldsögur sem allar renna út eins og heitar lummur. Alþýðukona, húsfreyja og móðir sem lætur sér ekki nægja hið hefðbundna kvenhlutverk.  Þessi kona hét Guðrún Baldvina Árnadóttir, fæddist á Lundi í Fljótum 1887 og ólst upp í hópi níu systkina.  Foreldrar hennar voru Árni Magnússon (1854-1924) og Baldvina Ásgrímsdóttir (1858-1941). Þau voru ábúendur á Lundi í Stíflu í Fljótum fyrstu ellefu æviár Guðrúnar. Þá fluttust þau að Enni á Höfðaströnd og fimm árum síðar út á Skaga, fyrst að Ketu síðan að Mallandi.  Tvítug fór Guðrún alfarin að heiman og tuttugu og þriggja ára giftist hún Jóni Þorfinnssyni bónda og smið. Þau bjuggu fyrst á harðbýliskotum í Húnavatnssýslu en fluttu árið 1922 að Ytra-Mallandi á Skaga og loks á Sauðárkrók um 1940 þar sem þau bjuggu til æviloka.

Fór að semja um leið og hún lærði að skrifa

Guðrún hóf að semja sögur um leið og hún lærði að skrifa. Þegar fjölskylda hennar fluttist að Enni komst Guðrún í kynni við fjölbreyttara mannlíf en hún hafði áður þekkt. Á Höfðaströnd naut hún stuttrar skólagöngu. Jafnframt kynntist hún nýjum bókmenntum því í lestrarfélagi Höfðastrandar buðust margs konar bækur að láni. Fram að því hafði Guðrún einkum hlustað á og lesið fornsögur og þjóðsögur. Örugglega hafa allar þessar sögur verið henni fyrirmynd við ritstörfin. Guðrún nýtti sér lestrarfélög alla tíð, fyrst á Höfðaströndinni og svo á Skaganum og á Sauðárkróki. Tengsl Guðrúnar við bókasöfnin eru sterk því í aldarfjórðung voru bækur Guðrúnar vinsælustu útlánsbækurnar um allt land.[2]

Í viðtölum talar Guðrún af alúð um æskuheimili sitt, Lund, og þegar hún tekur sér höfundarnafn kennir hún sig við það. Guðrún skrifaði mikið sem unglingur í foreldrahúsum, hætti er hún fór að búa, en hóf ritstörf á ný þegar hún komst í nábýli við foreldra og systkini á Skaga. Guðrún tregaði ekki liðna tíð og óskrifaðar sögur heldur yfirvann smám saman allar torfærur sem urðu í vegi hverrar konu sem vildi verða rithöfundur í upphafi 20. aldarinnar.

Gat ekki verið án þess að skrifa

Enda þótt Guðrún legði ritstörfin á hilluna þegar hún gekk í hjónaband var sagnagerð alltaf ofarlega í huga hennar. Hún hafði ríka þörf fyrir að skrifa og segir meðal annars: „Ég gat ekki verið án þess að skrifa. Mig hafði alla ævi langað til þess ...“[3] Skriftir veittu Guðrúnu lífsfyllingu. Henni leið illa gæti hún ekki skrifað svolítið daglega og henni veittist létt að skrifa. En hún þurfti næði og vildi helst vera alein á meðan hún skrifaði[4]. Bækur Guðrúnar eru eins og hún vildi sjálf hafa þær og hún lagði sig fram um að skrifa raunsæjar sögur. Guðrún er þakklát fyrir hinn stóra lesendahóp því lestur verkanna þykir henni mikilvægu og hún segir: „Mér þætti leiðinlegt ef fáir vildu lesa bækurnar mínar.“[5] Hún þurfti sannarlega ekki að hafa áhyggjur því bækur hennar voru og eru enn lesnar af ungum sem öldnum.

Guðrún las mikið.[6] Hún hreifst af Torfhildi Hólm og sem ung kona öfundaði hún Torfhildi fyrir að hafa getað samið skáldsögu. Greinilegt er að Torfhildur og aðrar fyrirmyndir úr hópi skáldkvenna efldu Guðrúnu til dáða og urðu til þess að hún gaf ritstörfin aldrei alveg frá sér þrátt fyrir að aðstæður hennar leyfðu ekki skriftir um langt árabil. Loks þegar hún komst í hóp skáldkvenna var hún gagnrýnd fyrir langar sögur en þann dóm hafði Torfhildur einnig fengið.[7]  Lesendur Guðrúnar glöddust aftur á móti yfir hinum löngu skáldsögum hennar og fengu aldrei nóg.[8]

Bóklestur hefur löngum þótt merki um leti og svo var einnig í uppvexti Guðrúnar. Það voru einungis skussar og letingjar sem „lágu í bókum“. Í smásögunni Kvöldgeislum, sem birtist sem framhaldssaga í Nýju kvennablaði 1952, fjallar Guðrún einmitt um þetta. Í sögunni er ungur maður sem tekur bóklestur fram yfir líkamlegt erfiði. Hann er búskussi og alger andstæða dugandi manna. Í sögunni er einnig ung stúlka sem bæði hefur gaman af sögum og fæst við að skrifa sjálf. Hún er sýnd sem mótmynd góðu húsfreyjunnar. Hér fjallar Guðrún um hlutskipti skáldkonu sem jafnframt er húsmóðir, efni sem hún þekkir af eigin raun og fyrir þær sakir er sagan athyglisverð. Í Kvöldgeislum sýnir Guðrún að unga stúlkan getur aldrei bæði orðið góð húsmóðir og skáldkona. Lausnin felst í því að unga stúlkan afsalar sér húsmóðurréttinum til annarrar konu, ráðskonunnar. Ráðskonan elskar húsbóndann og mun því ekki ganga úr vistinni, unga skáldkonan umber afbrýðisemi ráðskonunnar til að geta sinnt ritstörfum. Húsbóndinn sættir sig við að eiginkonan er ómöguleg húsmóðir því hún er kát og ástúðleg og hann vill ekki missa hana.

Dalalíf kemur út

Fyrsta bók Guðrúnar, Æskuleikir og ástir, sem jafnframt er fyrsta bindi Dalalífs, kom út árið 1946. Skömmu áður hafði Nýtt kvennablað birt fyrsta hluta nýrrar framhaldssögu eftir Guðrúnu, Afdalabarn.  Ekki þarf að efast um að það ýtti við útgefandanum sem hafði haft handritið að Dalalífi hjá sér í nokkurn tíma án þess að gefa það út. Æskuleikir og ástir seldist vel og ekki stóð á útgefandanum að gefa út bækur Guðrúnar eftir þetta.[9] Á árunum 1946 til 1973 gaf Guðrún út eina bók á ári með einni undantekningu því engin bók kom árið 1969, samtals 27 bækur.

Hestamenn og kvennamenn eru fyrirferðarmiklar persónur í verkum Guðrúnar. Jón Jakobsson í Dalalífi er þeirra frægastur:

Þóra stansaði og horfði á. Hún gat ekki gengið fram hjá svona áhrifamikilli sjón. Það hlaut að fara að líða að leikslokum. Þóra nálgaðist réttina ósjálfrátt.

„Húrra!“ kallaði Siggi. „Þar er björninn unninn.“

Þóra færði sig nær. Einvíginu var lokið. Maðurinn hafði beygt hina trylltu krafta dýrsins. Gráir gufustrókar stóðu fram úr nösum hestsins og Jón þurrkaði svitann framan úr sér á skyrtuerminni. Þá kom hann auga á Þóru.

„Ætlarðu ekki að koma og sjá reiðhestsefnið mitt, Þóra?“ kallaði hann glaðlega. (133-134)[10]

Karlmaðurinn temur hestinn, einvígi hefur verið háð milli manns og hests og maðurinn farið með sigur. Áherslan er á líkamann, svitinn bogar af manninum og gufu leggur upp af hestinum. Konan dregst ósjálfrátt að leikvellinum. Hér er þekkt mynd þar sem kona og unglingspiltur horfa full aðdáunar á karlmann í æsandi keppni.

Þóra í Hvammi, sem nýtur þess að horfa á Jón temja hestinn, var fyrsta kærasta hans. Hún fór oft með Jóni í útreiðartúra en hætti því er Jón tók aðra fram yfir hana. Þóra gat þó áfram dáðst að Jóni á hestbaki. Eiginmanni sínum, sem hún hefur litla ást á, fer hún aldrei með í útreiðartúra. Hann er lítill reiðmaður og skortir hlýju og ástúð sem Þóra þráir.

Stúlka sem Jón Jakobsson barnaði er send brott úr sveitinni á reiðhesti Jóns. Hestinn fær stúlkan að láni rétt eins og ástarsambandið var einungis stundargaman. Samband Jóns við þessa stúlku ógnaði hjónabandinu og sést það best á því að stúlkan fær reiðhest hans sem eiginkonan ein kvenna hafði riðið áður.

Jón barnar einnig vinnukonu sína, Línu. Ástarfundir þeirra eru í hesthúsinu. Til að hylma yfir sekt sína finnur Jón mannsefni, sem gengst við barninu. Jón dró vinnukonuna á tálar og sem eins konar uppbót fyrir hlutskipti hennar gefur hann henni hest.

Lína þeysti á undan hópnum, sem kom handan yfir ána, við hlið Erlendar á Hóli, sem var bezt ríðandi. Hún reið steingráum gæðingi með marki hreppstjórans. Doddi varð að láta sér nægja að vera aftarlega í hópnum, þótt honum hins vegar fyndist það hefði átt bezt við að hann hefði riðið við hliðina á Línu, en Rauður fór ekki hraðara en hann var vanur, þó að eigandi hans væri á leiðinni til giftingarinnar.[11] (1272-1273)

Jón hefur bæði markað hestinn og Línu, sem gengur með barn hans. Brúðguminn, Doddi sem hvorki er hestamaður né kvennamaður getur ekki fylgt brúðinni eftir og hún bíður hans ekki.

Mannvinurinn Guðrún

Í sögum sínum sýnir Guðrún konur sem þrá hlýju, aðdáun og munúðarfullt ástalíf. Ungar konur sem þrá heita ást laðast að hinum kraftmiklu og lífsglöðu hestamönnum en þeir eru sjaldnast við eina fjölina felldir. Í sögunum fjallar Guðrún einnig um togstreitu sem skapast þegar tengdadóttir kemur á heimili og keppir við tengdamóður um völd, hún skrifar um mæðgur sem elska sama manninn og um vitrar og víðsýnar gamlar konur. Hjónabönd og líf giftra kvenna er þungamiðja margra sagnanna og athyglisvert að það er ekki fyrr en á efri árum sem konur njóta hamingju.

Viðtöl við Guðrúnu frá Lundi sem birtust af og til á rithöfundaferli hennar eru fróðleg og gefa lesanda mynd af Guðrún sem einlægri og hógværri konu. Guðrún fylgdi ekki þeim stefnum og straumum í bókmenntum sem leiðandi höfundar og bókmenntafræðingar samtímans boðuðu. Hún hefur samt fylgst með bókmenntaumræðunni og er sér meðvituð um fordómana sem ríktu í garð skáldkvenna á fimmta og sjötta áratug 20. aldar. Guðrún hélt ótrauð áfram að skrifa meðan henni entist þróttur enda átti hún traustan og stóran lesendahóp. Þegar íslensk skáld kepptust við að aga formið, stytta og fága verk sín flæddu sögur Guðrúnar frá henni sjálfri, frjálsar undan hefðinni. Guðrún Árnadóttir frá Lundi skrifaði sjálfri sér til dægradvalar og ánægju. Ritstörfin ein og sér eru aðeins hluti ánægjunnar. Fullkomnun ánægjunnar er að sjá bækurnar á prenti og að sögurnar, sköpun hennar, öðlist tilveru meðal lesenda og endurfæðist í lestri þeirra.

Höfundur greinar: Sigurrós Erlingsdóttir

Heimildaskrá

Bjarni Benediktsson frá Hofteigi, 1957. „Gangurinn í málskapsvélinni.“ Þjóðviljinn 3. nóvember.

Dagur Þorleifsson, 1972. „Dalurinn minn í stækkaðri mynd.“ Vikan 15. júní, bls. 26-27, 36-37.

„Fjöldi nýrra bóka frá Ísafold. Upplög þeirra minni en áður.“ 1951. Morgunblaðið 2. september.

Guðrún Árnadóttir frá Lundi, 1946-1949,1951. Dalalíf I-IV. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

„Guðrún frá Lundi: „Hissa á vinsældunum.““ 1959. Morgunblaðið 11. september.

GÞE, 1970. „„Guðrún frá Lundi á metið. Hagalín fylgir í kjölfarið.“ Rætt við Ása í Bæ um bókasöfn á Suður- og Vesturlandi.“ Þjóðviljinn 18. október.

Halldór Laxness, 1992. Í túninu heima. 2. útg. 2. prentun. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Helgi Konráðsson, 1952. „Kunningjar hennar úr væntanlegum skáldsögum voru henni til skemmtunar við heimilisstörfin. Guðrún frá Lundi segir frá ævi sinni og ritstörfum.“Morgunblaðið 24. desember.

Hólmfríður Gunnarsdóttir, 1975. “Myndir úr lífi Dalafólksins.“ Lesbók Morgunblaðsins 13. júlí.

Höfundaskýrslur bókafulltrúa ríkisins, 1957-1974.

Jón Hjartarson, 1970. „„Ég hélt þetta yrði rifið í sundur.““Vísir 23. nóvember.

Matthías Jóhannesson, 1956. „Skáldkonan á Sauðárkróki: „Ég byrjaði á Dalalífi um fermingu,“ segir Guðrún frá Lundi í stuttu landsímasambandi. Morgunblaðið 21. október.

Oddur Ólafsson, 1964. „Þær settu svip sinn á bókaflóðið.“ Alþýðublaðið 24. desember.

„Stóraukin útlánastarfsemi bókasafnanna. Rætt við Guðmund G. Hagalín um bækur og menn.“ Morgunblaðið 10. september.

 


[1] Svo mælir Guðrún um árin sem hún skrifaði ekkert sjá Helga Konráðsson, 1952

[2] Höfundaskýrslur bókafulltrúa ríkisins, 1957-1974. Sjá einnig „Stóraukin útlánastarfsemi bókasafnanna“, 1959; GÞE, 1970

[3] Helgi Konráðsson, 1952

[4] Oddur Ólafsson, 1964; Jón Hjartarson, 1970; Dagur Þorleifsson 1972

[5] Matthías Jóhannessen, 1956; sjá einnig „Hissa á vinsældunum“, 1959

[6] Dagur Þorleifsson, 1972; Hólmfríður Gunnarsdóttir, 1975.

[7] Bjarni Benediktsson frá Hofteigi, 1957; Halldór Laxness, 1992

[8] „Fjöldi nýrra bóka frá Ísafold”, 1951

[9] Matthías Jóhannesson, 1956; Helgi Konráðsson 1952

[10] Guðrún Árnadóttir frá Lundi, 1946-1949, 1951: 133-134.

[11] Sama rit: 1272-1273.

Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is