Saga bókasafnsins

Saga Héraðsbókasafns Skagfirðinga

Elsta heimildin um stofnun bókasafns fyrir Skagafjarðarsýslu er bréf sem sr. Zóphónías Halldórsson í Viðvík skrifaði sýslunefnd Skagafjarðarsýslu árið 1898 þar sem hann lagði til að sýslubókasafn yrði stofnað. Ekkert varð þó úr því í bráð en ákveðið að Amtbókasafnið á Akureyri þjónaði öllum Norðlendingafjórðungi og sendi bækur til lestrarfélagana sem starfandi voru í mörgum sóknum í Skagafirði. Þessi háttur þótti ekki gefast vel og lagðist fljótlega af. Það var því árið 1904 að ákveðið var á sýslufundi að stofna bókasafn og voru þrír menn kosnir til að semja reglugerð safnsins og kaupa inn bækur. Margt er óljóst um starfsemi safnsins fyrstu áratugina þar sem elstu gögn þess eru nú flest glötuð, þó má fullyrða að starfsemin hafi verið fremur lítil og fáar bækur keyptar, en þó vitum við að Lestrarfélag Sauðárhrepps gaf safninu allar bækur sínar árið 1906 og er enn talsvert af bókum í safninu frá þessu gamla lestrarfélagi.

Í ítarlegri skýrslu sem Ísleifur Gíslason ritaði til sýslunefndar árið 1918 kom fram að lánuð hafi verið út það ár 560 bindi og hafi þau verið lesin af fólki úr 9 hreppum sýslunnar. Það ár hafði safnið 60 meðlimi og greiddi hver 50 aura til þess. Langmest var safnið notað af Sauðárkróksbúum auk íbúa Skarðshrepps og Staðarhrepps. Ísleifur gat þess að skáldsögur væru lang vinsælasta lestrarefnið og voru sumar lánaðar út margoft. Þá voru ríflega 40 rit keypt til safnsins á árinu, þar af dálítið af bókum sem keyptar höfðu verið á uppboði. En þetta ár eignaðist safnið engu að síður bækur eftir Einar H. Kvaran, Gunnar Gunnarsson, Selmu Lagerlöf, Guðmund Friðjónsson og Jón Trausta svo einhverjir höfundar séu nefndir þannig að viðskiptavinir safnins fóru ekki varhluta af því sem var efst á baugi í íslenskum bókmenntum, og jafnvel þó víðar væri leitað.

Hins vegar sveið mönnum á þessum tíma mjög hversu takmörkuð starfsemi safnsins var og slæm aðstaða var því búin. Árið 1923 ritaði Kristján Linnet sýslumaður greinargerð til sýslunefndar um safnið og er rétt að taka hér upp nokkur orð úr skýrslu hans. Kristján sagði:

Eins og mörgum er kunnugt og mjer sjálfum ekki síst er hið svonefnda sýslubókasafn Skagafjarðarsýslu mjög ófullkomið og ófullnægjandi, svo með sanni má segja að það sje fáum til gagns og enn færri til ánægju. Fyrir tveim árum var tekin upp sú stefna að ekki skyldi kaupa aðrar bækur til safnsins en þær, sem til fróðleiks mættu verða, og þó að ávallt hafi aðsókn að safninu verið lítil mun þó mega fullyrða að síðan hefur minnkað og dregur að því að innan skamms verði bókavörðurinn eini maðurinn, sem þangað snýr göngu sinni.

Kristján taldi lítinn tilgang að halda úti safni með slíkri starfsemi og hvatti mjög til þess öll lestrarfélög sýslunar yrðu sameinuð í eitt stórt sýslubókasafn þar sem völ væri á fjölbreyttum bókakosti og leit hann svo á að slíkt safn ætti ekki einungis að eiga góðbókmenntir, heldur mættu skemmtibækur vera þar innanum svo framarlega að þær væru ekki beinlínis siðspillandi. Rakti Kristján síðan af nákvæmni hugmyndir sínar um hvernig móðursafnið gæti verið staðsett á Sauðárkróki með útibúum um sveitir héraðsins. Má segja að hugmyndir Kristjáns frá árinu 1923 séu sláandi líkar þeim hugmyndum sem nú eru uppi um rekstur bókasafna í dreifbýli.

Þrátt fyrir viturlegar hugmyndir sýslumanns í þessu efni, varð þó ekkert af því að gripið yrði til framkvæmda. Nefnd var þó skipuð í málið þar sem sátu Sæmundur Dúason, auk sæmdarprestanna Hallgríms Thorlacius og Arnórs Árnasonar. Þeir töldu hugmyndir Kristjáns allrar athygli verðar, en samgöngur hömluðu þó framkvæmdum að þessu leyti. Niðurstaðan varð því sú að allt hélst í svipuðu fari, en þó jókst aðsókn að safninu nokkuð á næstu árum og auknu fé mun hafa verið eytt til safnsins.

Þrátt fyrir að heimildaskortur um fyrstu starfsár safnsins sé fyrir hendi er samt ýmislegt sem hefur varðveist frá starfseminni fyrstu áratugina. Á árunum frá um 1925-1930 var nokkurt samstarf milli bókaverslunar Ársæls Árnasonar í Reykjavík og bókasafnsins. Varðveist hefur bókalisti frá versluninni frá árinu 1927. Merkt er við þær bækur sem safnið hugðist kaupa af Ársæli, þær voru alls sex talsins. Þar af voru tvær tengdar Vilhjálmi Stefánssyni landkönnuði, annars vegar æfisaga hans og hins vegar bókin Í norðurveg. Ákveðið var einnig að kaupa Vesalinga Hugos, en ekki er síður áhugavert hvað safnið ákvað að kaupa ekki. Þar á meðal er Vefarinn mikli frá Kasmír eftir Halldór frá Laxnesi en geta ber þess að árið 1927 telst ekki til þess árs sem stórvirki í íslenskri bókmenntasögu komust á þrykk, nema helst ef undan er skilinn Vefarinn mikli.

Hér er ekki tími til að rekja nákvæmlega starfsemi safnsins frá ári til árs en við skulum víkja til ársins 1932. Ísleifur var enn bókavörður og sendi skýrslu sína til sýslunefndar. Það ár voru lánuð út 1112 bindi. Langmest af skáldsögum eða 622 bækur og 191 sagnfræðirit en aðrar bækur voru ekki eins vinsælar. Þremur árum síðar hafði aðsóknin heldur dalað en þó lánaðar bækur til 172 manna. Einar H. Kvaran var vinsælastur höfunda þá sem endranær. 24 lánþegar fengu bækur hans að láni en þar á eftir voru Guðmundur Friðjónsson, smásagnahöfundurinn, Jóhann Magnús Bjarnason, Sveinbjörn Egilsson, Davíð Stefánsson og Halldór frá Laxnesi og það þótt Vefarinn mikli væri enn ekki kominn í eigu safnsins.

Árið 1937 urðu tímamót í sögu Héraðsbókasafnsins þegar það fluttist í nýtt húsnæði við Suðurgötu. Lét Ísleifur þá af starfi bókavarðar, sem hafði verið honum um margt erfitt, því þrátt fyrir litla notkun á safninu var aðstaðan öll erfið og litla borgun að fá fyrir vinnuna. Tók Steingrímur Arason við bókavörslu og sá um útlán næstu 20 árin, en hann bjó á efri hæð bókhlöðunnar. Þá var heildar bókaeign safnsins 1100 bindi, flest eigulegar bækur, en í slæmu ástandi. Sr. Helgi Konráðsson tók að sér að skrásetja safnið fyrir væga þóknun og gerði hann vandaða spjaldskrá fyrir allar bækurnar. Var Helgi vakinn og sofinn yfir framgangi safnsins og næstu árin jókst það mjög að vöxtum. Í árslok 1949, þegar safnið gaf út prentaða bókaskrá, voru 5500 bindi á skrá. Munaði miklu um rausnarlegar gjafir til safnsins  einkum frá Jósef J. Björnssyni skólastjóra á Hólum og sr. Hallgrími Thorlacius í Glaumbæ en þær tvær gjafir numu hátt á 11. hundrað bindum.

Fullyrða má að eflingu bókasafnsins á þessum árum megi rekja til áhuga áhrifamanna innan sýslunnar. Ég held að á engan sé hallað þó nefnd séu nokkur nöfn í þessu sambandi. Nöfn þeirra sr. Helga Konráðssonar, Sigurðar Sigurðssonar sýslumanns og Jóns Sigurðssonar á Reynistað. Þeir ásamt mörgum öðrum lögðu á sig mikla vinnu til að efla bókasafnið á alla lund og árangurinn lét ekki á sér standa.

Árið 1956 tók Björn Daníelsson skólastjóri við bókakaupum og skráningu bóka og svo afgreiðslu á útlánstímum. Jafnt og þétt jókst bókaeignin og útlán að sama skapi hröðum skrefum. Tíu árum síðar var ljóst að bókhlaðan sem reist hafði verið við Suðurgötuna var orðin allt of lítil og hamlaði mjög starfsemi safnsins. Um áramótin 1969-1970 var bókasafnið flutt Safnahúsið við Faxatorg og aftur varð mikil útlánaaukning á safninu enda gjörbreyttist öll aðstaða þess. Árið 1970 voru lánuð út tæplega 12.000 bindi og hafði aukist um nærri helming frá árinu áður. Guðrún frá Lundi var lang vinsælasti rithöfundurinn en 190 manns höfðu tekið bækur hennar að láni það ár. Ljóst var að erfitt væri að halda starfsemi safnsins gangandi og sinna tilfallandi verkefnum fyrir mann sem hafði bókavörsluna að aukastarfi, en það tókst Birni Daníelssyni og vann hann mikið og gott starf uns hann féll skyndilega frá árið 1974. Björn átti mikinn þátt í að ráðist var í byggingu Safnahússins. Hafði hann yfirumsjón með framkvæmdum og mun hafa mætt mest á honum að þoka málum áleiðis.

Haustið eftir að Björn féll frá var Eiríkur Rögnvaldsson ráðinn í fullt starf við safnið og árið 1976 tók Hjalti Pálsson við starfi bókavarðar og gengdi hann því til ársins 1990. Þá tók Jón Árni Friðjónson við starfi og loks Dóra Þorsteinsdóttir sem hefur verið héraðsbókavörður frá árinu 1991. Jafnframt hafa stjórnarmenn í söfnunum sinnt starfi sínu af kostgæfni og lagt á sig mikla vinnu þeim til eflingar. Nefna má þá Kára Jónsson, Gunnar Gíslason í Glaumbæ og Björn Björnsson skólastjóra sem voru í stjórn Safnahússins um langt skeið, svo einhverjir séu nefndir.

Árið 1981 var heildarfjöldi útlána kominn í tæplega 36.500 bindi og hafði þá tvöfaldast frá árinu 1975, en upp úr því dró nokkuð úr útlánum, enda varð afþreying fólks fjölbreyttari og tilkoma vídeósins talin af sumum ganga að bókinni dauðri. Svo varð þó ekki. Í allmörg skipti hefur verið gefið út dánarvottorð bókarinnar, en hún lifir nú samt góðu lífi. Árið 1981 voru skráðar tæplega 18.000 bækur í safninu, en marg óskráð að auki. Í dag eru skráðar um 35.500 bækur í safnið og eru þá ekki talin tímarit, blöð, bæklingar og raunar fjölmargar bækur sem safninu tilheyra. Í dag eru heildarútlán bókasafnsins á ári hverju um 23.000 eintök. Ríflega 600 manns hafa útlánsskírteini á bókasafninu og er stærstur hluti þeirra virkir lánþegar sem koma oft á safnið á ári hverju. Nú er svo komið að það rými sem safnið hefur er á þrotum enda orðin 35 ár síðan þetta hús reis. Það er afar mikilvægt að huga að bættri aðstöðu safnsins og nú á síðustu misserum hefur verið unnið að hugmyndum um stækkun Safnahússins í tengslum við byggingu menningarhúss. þannig að söfnin fái nauðsynlega viðbót í húsnæði. Þá mun það sama gerast og gerðist þegar bókhlaða reis við Suðurgötuna árið 1937 og hér á Faxatorgi árið 1970 að notkun á safnininu mun aukast stórkostlega og bókasafnið verður miðpunktur í öflugu starfi menningarmiðstöðvar hér á Króknum fyrir alla íbúa Skagafjarðar.

Bókasöfn á Íslandi eiga sér langa sögu. Margir hafa velt fyrir sér framtíð safnanna með tilliti til margvíslegra og stórkostlegra upplýsingaveitna svo sem Internetsins. Ekkert bendir til þess í dag að mikilvægi bókasafna sé að minnka, þvert á móti gegna bókasöfnin fjölbreyttu og mikilvægu hlutverki enda verður krafan um upplýsingar og þjónustu sífellt háværari. Á síðustu árum hefur mjög víða um land verið byggð upp glæsileg bókasöfn sem eru sómi hvers sveitarfélags. Uppbygging Héraðsbókasafnsins hér í Skagafirði mun efla byggðarlagið og skapa góða aðstöðu til náms, afþreyingar og upplýsingaleitar öllum íbúum Skagafjarðar til hagsbóta.

 

Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is