Stephan G. Stephansson

Stephan G. Stephansson

Stephan G. Stephansson, sem upphaflega hét Stefán Guðmundur Guðmundsson fæddist þann 3. október 1853 á Kirkjuhóli í Skagafirði, en lést 9. ágúst 1927 í Alberta í Kanada. Hann var landnemi landnemi og ljóðskáld í Vesturheimi.[1]

Skáld raunsæisstefnunnar

Stephan er oftast talinn hafa fylgt raunsæisstefnunni.[2] Sú stefna er það tímabil bókmenntasögunnar sem kennt er við raunsæi, þegar höfundur vill gefa efni sínu raunsætt yfirbragð og gætir þess að lýsa umhverfi og persónum þannig að lesandinn fái á tilfinninguna að verið sé að lýsa raunverulega fólki og umhverfi. Að það sem sagt er frá hafi í raun og veru gerst.[3] Bókmenntasögu er skipt í nokkur tímabil, eott þeirra er kennt við raunsæi. Það kom fyrst fram hér á landi á fyrri helmingi 19. aldar og reis gegn inntaki rómantísku stefnunnar. Hlutverk skálda var að fjalla um samtíð sína og lýsa raunveruleikanum sem blasti til allt í kring; fátækt, mismunun og réttleysi. Skáldin áttu í skrifum sínum að benda á hvað betur mætti fara, hafa áhrif á umhverfi sitt og berjast fyrir betra lífi almennings, ekki síst undirmálsfólks. Þannig fengu bókmenntir oft á sig ádeilublæ. Áhersla var lögð á smásögur og skáldsögur en einnig voru ort kraftmikil baráttu- og brýningarljóð og ritaðar barna- og unglingabækur í anda raunsæis.[4]

Bernska í Skagafirði

Stefán fæddist þann 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson. Talað er um anan fæðingardag eða jafnvel fæðingarstað í sumum heimildum en það á rætur sínar að rekja til þess að presturinn sem skírði hann í Víðimýrarkirkju fór ekki rétt með í kirkjubókinni.[5]

Vinnumaður í Þingeyjasýslu

Stefán bjó í Skagafirði til fimmtán ára aldurs en fluttist þá í Þingeyjarsýslu og var vinnumaður þar. Hann bjó þar allt þar til hann fór til Vesturheims.[6]

Tvítugur til Wisconsin í Vesturheimi

Árið 1873, þá að verða tvítugur, fór Stefán til Vesturheims með foreldrum sínum  og systur. Hann bjó í fimm ár í Wisconsinfylki í Bandaríkjunum. Fyrstu árin í Vesturheimi vann hann meðal annars við járnbrautarlagningu og skógarhögg.[7]

Tíu ár í Norður-Dakota

Árið sem Stefán fluttist frá Wisconsins, þá 25 ára, kvæntist hann náfrænku sinni, Helgu Sigríði Jónsdóttur. Þau eignuðust saman átta börn en sex þeirra komust upp. Næst bjuggu þau að Görðum í Norður-Dakóta og voru þar í tíu ár. Þar lést faðir Stefáns, en Stefán sá fyrir foreldrum sínum á meðan þau lifðu. Upp úr fertugu hætti Stefán þeim verkmannastörfum sem hann hafði sinnt og einbeitti sér að búskapnum. Sem bóndi afrekaði hann að nema land þrisvar og virðist hafa farist það vel úr hendi.[8]

Síðustu áratugir ævinnar í Alberta

Árið 1889 fluttist Stefán til Albertafylkis í Kanada og bjó þar til dauðadags, en hann lést 9. ágúst árið 1927, næstum 74 ára. Hús Stephan og Helgu í Alberta stendur enn á heimilisjörð fjölskyldunnar, skammt frá þorpinu Markerville. Húsið (Stephansson House) hefur verið gert upp og í dag er það sögustaður á vegum Albertafylkis (Alberta Provincial Historic Site). Það er opið almenningin á sumrin.[9]

Guðmundsson, Stefansson og Stephansson

Í Wisconsin kallaði Stefán sig Stefán Guðmundsson en í Dakóta var hann skrifaður Stefansson. Þetta leiddi til þess að bréf hans rugluðust við bréf annarra Stefanssona svo Stefán tók upp nafnið Stephan G. Stephansson sem hann varð þekktur undir. Stefán var líka oft kallaður Klettafjallaskáldið.[10]

Stephansson House

Hús Stefáns og Helgu í Alberta stendur enn á heimilisjörð fjölskyldunnar, skammt frá þorpinu Markerville. Húsið (Stephansson House) hefur verið gert upp og í dag er það sögustaður á vegum Albertafylkis (Alberta Provincial Historic Site). Á sumrin (maí-ágúst) er það opið almenningi.[11]

Húsið í niðurníðslu: https://timarit.is/page/3294478?iabr=on

Skáldskapur

Fyrsta ljóðakver Stefáns var Úti á víðavangi sem kom út árið 1894. Ljóðabækur hans urðu fjölmargar, flestar gefnar út í Reykjavík.[12]

Eitthvað af lausamáli eftir hann birtist líka í íslensku blöðunum fyrir vestan. Meginverk hans verður að teljast Andvökur I-IV sem út kom á árunum 1909-1938. Bækurnar draga nafn sitt af því, að Klettafjallaskáldið átti erfitt með svefn í Vesturheimi og flest ljóð hans því saminn á nóttunni. Vegna þess að hann orti á nóttunni er slæðingur af villum í ljóðum hans. Stíll hans var allajafna nokkuð tyrfinn og yrkisefnin óvenjuleg svo hann hefur ekki átt upp á pallborðið hjá öllum fræðimönnum. Ekki bætir úr skák að hann var á móti því að skýringar fylgdu ljóðum hans, þótti það skemma ljóðið.[13]

Úr Íslendingadagsræðu Stephans G. frá 1904

Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfoss og hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!

Yfir heim eða himinn
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðarlönd!
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld,
þar sem víðsýnið skín.

Það er óskaland íslenskt,
sem að yfir þú býr,
aðeins blómgróin björgin,
sérhver baldjökull hlýr,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfoss og hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!

Heimildir:

Stephan G. Stephansson. 1939. Andvökur. Sigurður Nordal sá um útgáfuna. Mál og menning, Reykjavík.

Stephan G. Stephansson. 1957. „Stephan G. Stephansson.“ Merkir Íslendingar –Ævisögur og minningargreinar VI, bls. 278-305. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Bókfellsútgáfan, Reykjavík.

Sverrir Kristjánsson. 1987. „ Efnishyggja og húmanismi Stepháns G. Stephánssonar. “ Ritsafn, fjórða bindi, bls. 97- 110. Mál og menning, Reykjavík.

Viðar Hreinsson. 1996. „Stephan G. Stephansson.“ Íslensk bókmenntasaga III. Halldór Guðmundsson ritstýrði. Mál og menning, Reykjavík.

Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is