Það ríkti mikil spenna þegar keppni í Glæpakvissi fór fram á landsvísu á fimmtudaginn í síðustu viku, að undirlagi Hins íslenska glæpafélags. Um tuttugu bókasöfn víðs vegar um landið tóku þátt og var Héraðsbókasafn Skagfirðinga eitt þeirra. Keppnin í Skagafirði fór fram í Gránu á Sauðárkróki og sáu glæpakvendin Fríða og Siva um framkvæmdina. Mættu þær uppáklæddar sem lögreglumenn meðan saklausir keppendur leystu 30 spurningar sem bornar voru fram í máli og myndum.
Veðrið hefur eflaust dregið úr mætingu á viðburðin en þær sem tóku þátt og ekki síður spyrlarnir skemmtu sér konunglega. Verðlaunin voru gefin af Kaupfélagi Skagfirðinga. Í verðlaun var bókin Heim fyrir myrkur eftir Evu Björg Ægisdóttur og voru öll verðlaunaeintökin árituð af höfundi. Þess má geta að Eva Björg hlaut hin íslensku glæpasagnaverðlaun, Blóðdropann, fyrir bókina en hún kom út í fyrra.