Fjölmennt málþing í Miðgarði

Kristján B. Jónasson ásamt nokkrum upplesaranna
Kristján B. Jónasson ásamt nokkrum upplesaranna

Síðastliðinn sunnudag var haldið málþing í Miðgarði í tilefni þess að 70 ár eru liðin síðan fyrsta ljóðbók Skagfirðingsins Hannesar Péturssonar kom út. Fjölmenni sótti málþingið sem var á vegum Sögufélags Skagfirðinga. Héraðsbókasafn Skagfirðinga tók þátt í viðburðinum með útstillingu á bókum Hannesar og söluborði með aukaeintökum af bókamarkaði safnsins.

Málþingið var afar vel heppnað og aðsóknin frábær. Flutt voru áhugaverð erindi sem brotin voru upp með upplestri úr bókum Hannesar. Erindin fluttu þau Sölvi Sveinsson, Silja Aðalsteinsdóttir, Egill Helgason, Eyþór Árnason og Krisján B. Jónasson. Ljóðum skáldsins var síðan blandað inn í erindin og var það einvalalið úr héraði sem las ljóðin, þau Iðunn Kolka Gísladóttir, Sara Regína Valdimarsdóttir, Sigríður Kristín Jónsdóttir, Lilja Sigurlína Pálmadóttir, Ólafur Sigurgeirsson, Ólafur Atli Sindrason og Atli Gunnar Arnórsson. Þá söng Helga Rós Indriðadóttir þrjú lög við texta skáldsins, við undirleik Daníels Þorsteinssonar. Í hléi var boðið upp á kaffiveitingar.

Hannes Pétursson hefur gefið út ellefu ljóðabækur og kom sú síðasta, Haustaugu, út árið 2018. Hann hefur líka skrifað fjölda annarra bóka, bæði fræðibækur, ferðabækur, sagnaþætti og minningabækur. Hann hefur líka skrifað mikið í Skagfirðingabók og var þar í ritstjórn fyrstu árin og er heiðursfélagi í Sögufélagi Skagfirðinga.

Þess má geta að uppstilling á bókum Hannesar verður áfram í Héraðsbókasafni Skagfirðinga næstu daga. Þess má einnig geta að enn eru nokkrar bækur eftir til sölu.

Á Facebook síðu Héraðsbókasafns Skagfirðinga er að finna fleiri ljósmyndir frá viðburðinum.

 

 

 


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is