Frábær mæting á lestrarstund með leikurum

Lestrarstund hjá LS. Mynd: Saga Sjöfn
Lestrarstund hjá LS. Mynd: Saga Sjöfn

Á fimmtudaginn var fengum við góða heimsókn á safnið þegar tveir leikarar frá Leikfélagi Sauðárkróks, þau Ísak Agnarsson og Emilia Kvalvik, komu í heimsókn. Þau lásu bók um Einar Áskel fyrir börnin og tóku svo lagið með þeim á eftir. Rúmlega sextíu gestir komu til að hlusta á upplesturinn og syngja með þeim. Það má því segja að það hafi ríkt stuð og stemming á safninu seinni partinn á fimmtudaginn, enda metmæting í þessa lestarstund.

Þau Emilia og Ísak fara með hlutverk Dagnýjar og Guðmundar í leikritinu Óvitar sem leikfélagið frumsýnir næstkomandi föstudag, 10. október. Þetta er í fyrsta sinn sem Leikfélag Sauðárkróks tekur þátt í lestrarstund á safninu, en þær hófu göngu sína í janúar og voru vikulega fram í apríl og hófust svo á ný í september, að loknu sumarfríi.

Í vor sótti Héraðsbókasafnið um stuðning úr Bókasafnasjóði til að efla lestrarstundirnar og fékkst myndarlegur styrkur í verkefnið. Hann gerir okkur kleift að efla þetta mikilvæga starf og auglýsa það enn betur. Verkefnið stendur fram á næsta vor og vonumst við til að önnur leikfélög í firðinum hafi tök á að vera með.

Við erum hæstánægð með þessa frábæru mætingu og hlökkum til að sjá Óvita, eftir hinn frábæra barnabókahöfund Guðrúnu Helgadóttur, á fjölum Bifrastar.


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is