Heimsókn í Amtsbókasafnið og Berg á Dalvík

Siva og Hjördís skoða spiladeild Amtsbókasafnsins
Siva og Hjördís skoða spiladeild Amtsbókasafnsins

Á fimmtudaginn fór allt starfsfólk Héraðsbókasafn Skagfirðinga í vettvangsferð til Akureyrar og Dalvíkur. Heimsótt voru tvö bókasöfn, Amtsbókasafnið á Akureyri og bókasafn Dalvíkur sem staðsett er í menningarhúsinu Bergi á Dalvík.

Farið var í blíðskaparveðri frá Sauðárkróki upp úr kl átta á fimmtudagsmorgun. Byrjað var á að skoða Amtsbókasafnið þar sem þær Sigrún og Guðrún tóku vel á móti skagfirska föruneytinu. Safnið var skoðað og sagt frá metnaðarfullri starfsemi þess. Þaðan var haldið í innkaupaferð í Eymundsson í göngugötunni og læddust nokkrar bækur úr jólabókaflóðinu í innkaupapoka starfsmanna. 

Eftir hádegisverð á Akureyri Backpackers var ferðinni heitið til Dalvíkur. Þar tók Björk Hólm á móti hópnum og sagði frá starfsemi menningarhússins Bergs og bókasafnsins. Allir krókar og kimar hússins voru skoðaðir og síðan haldið heim á leið gegnum Ólafsfjörð og Siglufjörð.

Ferðin var vel heppnuð og móttökur góðar. Starfsfólk Héraðsbókasafnsins hefur fengið fullt af nýjum hugmyndum og lausnum í farteskið og hlakkar til að láta þær verða að veruleika á næstu mánuðum og árum.


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is