Það var líf og fjör í Safnahúsinu í gær þegar Lína langsokkur kom í heimsókn. Gestafjöldinn var álíka og árin sem liðin eru síðan fyrsta bókin ódauðlegu sögupersónu kom út í Svíþjóð, eða áttatíu. Börn á leik- og grunnskólaaldri fjölmenntu í fylgd með foreldrum, ömmum, öfum og frænkum.
Það var ekki að sjá á Línu sjálfri að aldurinn væri farinn að færast yfir því hún lék á alls oddi, las bókina Lína heldur afmælisveislu fyrir börnin og söng „Hér kemur Lína langsokk.“ Þá var boðið upp á föndurstund þar sem börnin lituðu skrautlega sokka og hengdu upp á safninu. Einnig gerður þau sína eigin Línu langsokk með fallega fléttað hár og tóku með sér heim. Loks bauðst þeim sem enn höfðu orku og úthald að horfa á stutta teiknimynd um söguhetjuna.
Við viljum þakka Kristeyju Rut Konráðsdóttur hjá Leikfélagi Sauðárkróks kærlega fyrir þessa skemmtilegu stund og einnig öllum sem lögðu okkur til efni og áhöld fyrir föndrið. Einnig þökkum við gestunum okkar kærlega fyrir komuna. Bókasafnið finnur fyrir miklum meðbyr í samfélaginu og fyrir það erum við þakklát.
Síðasta lestrarstund ársins verður fimmtudaginn 11. desember kl. 16:30. Þá mun Gróa Guðmunda Haraldsdóttir (Gógó) lesa jólasögu fyrir börnin.
