Gestafjöldi á bókasafninu sumarmánuðina þrjá, júní, júlí og ágúst, var 1740 í ár, sem er aðeins færra en í fyrra þegar 1817 gestir heimsóttu safnið í sömu mánuðum. Að jafnaði eru gestir bókasafnsins um 8000 á ári.
Opnunartími safnsins á Sauðárkróki er sá sami allt árið, opið frá kl. 11-18 alla virka daga. Starfsemin er í grunnin sú sama allt árið, nema hvað viðburðahald liggur að mestu leyti niðri yfir sumartímann, enda erum við fáliðuð þá vegna sumarleyfa. Sumarlesturinn setur þó svip sinn á starfið, því grunnskólabörnin eru dugleg að taka þátt í lestrarátaki yfir sumartímann. Þá eru mörg sem lesa mikið í sumarfríinu og nýta tækifærið til að koma og stoppa í rólegheitum þegar þau eiga sumarfrí. Sömuleiðis eru spil og púsl vinsælt efni til útláns á sumrin.
Við minnum á að hjá okkur er alltaf heitt á könnunni, aðgangur að þráðlausu neti og hægt að tylla sér niður og fletta blöðum og tímaritum. Einnig eru tímarit lánuð út. Svo getur líka verið notalegt að koma og fá sér kaffi eða te og jafnvel hitta aðra safngesti. Til okkar eru öll velkomin!