Á miðvikudagskvöldið í síðustu viku heimsóttu fjórir rithöfundar bókasafnið. Kynntu þau nýútkomnar bækur sínar og lásu upp úr þeim. Fjöldi gesta mætti á þennan viðburð og var gerður góður rómur að hinum nýju bókum. Að venju var svo boðið upp á kaffi, konfekt og jólate.
Rithöfundakvöldið hefur verið árviss viðburður í starfi bókasafnsins um margra ára skeið. Að þessu sinni voru það fjórir höfundar sem heimsóttu safnið, kynntu bækur sínar og lásu upp úr þeim. Nanna Rögnvaldardóttir kom með Völsku, sem er hennar fyrsta skáldsaga. Pálmi Jónasson kynnti bók sína Að deyja frá betri heimi, sem er ævisaga Jónasar Kristjánssonar læknis. Skúli Sigurðsson var með sína aðra skáldsögu, glæpasöguna Maðurinn frá Sao Paulo. Loks las Vilborg Davíðsdóttir og sagði frá bók sinni Land næturinnar.