SSNV styrkir tvö samstarfsverkefni innan Safnahússins

Sólborg og Kristín. Ljósmynd: Einar Einarsson
Sólborg og Kristín. Ljósmynd: Einar Einarsson

Á mánudaginn var fóru Kristín Sigurrós Einarsdóttir héraðsbókavörður og Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður á úthlutunarhátíð SSNV  sem haldin var á Sjávarborg á Hvammstanga. Þar veittu þær og viðtöku tveimur styrkjum úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Annars vegar sótti bókasafnið um styrk til að halda málþing í tilefni þess að 18. apríl verða liðin 100 ár frá fæðingu skagfirska rithöfundarins Indriða G. Þorsteinssonar og hins vegar sótti skjalasafnið um styrk til að halda grúsknámskeið. Hvort safn um sig er svo samstarfsaðili að verkefni hins safnsins.

Í máli Sveinbjargar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra SSNV, sem stýrði úthlutunarhátíðinni, kom fram að það fjármagn sem var til úthlutunar væri aðeins hluti af því sem sótt var um, enda er sjóðurinn samkeppnissjóður. Úr menningarhluta sjóðsins var úthlutað um 25 milljónum. Þar af fékk Héraðsbókasafnið 600.000 kr. til að halda málþing um Indriða G. Þorsteinsson og Héraðsskjalasafnið 104.800 kr. til að halda grúsknámskeið. 

Söfnin þakka SSNV kærlega fyrir veittan  stuðning og hlakka til að hrinda þessum verkefnum í framkvæmd, en þau verða nánar kynnt með auglýsingum og fréttatilkynningum þegar þar að kemur.


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is