Til heiðurs Guðbergi Bergssyni

Guðbergur Bergsson. Ljósmynd: Forlagið.
Guðbergur Bergsson. Ljósmynd: Forlagið.
Rithöfundurinn Guðbergur Bergsson lést í byrjun þessa mánaðar, á níræðisaldri.
Guðbergur var mikilvirkur og margverðlaunaður höfundur, sem skrifaði skáldsögur, ljóð og smásögur. Einnig þýddi hann spænskar bókmenntir á íslensku.
Honum til heiðurs höfum við stillt upp sýnishorni af bókum hans, auk þess að prenta út upplýsingar um ævi hans og höfundarverk.

Skáldsaga hans, Tómas Jónsson, metsölubók, sem kom út árið 1966, vakti athygli sem tímamótaverk og er oft talin fyrsta móderníska skáldsagan á íslensku. Verk hans hafa verið þýdd á búlgörsku, dönsku, eistnesku, finnsku, frönsku, litháísku, norsku, spænsku, ensku og þýsku.

Grindvíkingurinn Guðbergur

Guðbergur var sérlegur heiðursborgari Grindavíkur, sem var hans fæðingarbær. Faðir hans starfaði sem sjómaður á veturna og trésmiður á sumrin. Þegar Guðbergur fæddist stóð kreppan mikla yfir, og þótt að heldur hrörlegt hafi verið í Grindavík segir hann að andrúmsloftið hafi verið gott. Guðbergur vann við sjómennsku á yngri árum en útskrifaðist svo með kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1955. Því næst ferðaðist hann til Spánar þar sem hann útskrifaðist með próf í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona árið 1958. Guðbergur starfaði á fyrri hluta tíunda áratugarins sem listagagnrýnandi hjá vikublaðinu Helgarpóstinum.

Margverðlaunaður rithöfundur

Árið 1992 kom út bókin Guðbergur Bergsson; metsölubók sem er eins konar viðtalsbók Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur við Guðberg og jafnframt tilvísun í Tómas Jónsson, metsölubók. Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar, sem kom út 1997 er svo eins konar sjálfsævisaga Guðbergs.

Guðbergur hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Svaninn árið 1991 og fyrir skáldævisöguna Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar árið 1997. Guðbergur hlaut Norræn verðlaun sænsku bókmenntaakademíunnar árið 2004. Guðbergur fékk Riddarakross Afreksorðunnar frá Spánarkonungi og riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994.

Leikrit úr Tanga-bókunum

Árið 1994 var frumsýnt leikrit eftir Viðar Eggertsson sem hann skrifaði upp úr Tanga-bókum Guðbergs, „Það sefur í djúpinu", „Hermann og Dídí" og „Það rís úr djúpinu". Viðar leikstýrði sýningunni sjálfur og fékk Menningarverðlaun DV 1995 fyrir hvort tveggja. Þjóðleikhúsið sýndi verkið sem nefndist Sannar sögur af sálarlífi systra.

Yngri bróðir Guðbergs er Vilhjálmur Bergsson myndlistarmaður.

Heimild: Wikipedia.

Ritverk Guðbergs Bergssonar

Skáldsögur

Músin sem læðist, 1961

Tómas Jónsson, metsölubók, 1966

Ástir samlyndra hjóna, 1967

Anna, 1968

Það sefur í djúpinu, 1973

Hermann og Dídí, 1974

Það rís úr djúpinu, 1976

Saga af manni sem fékk flugu í höfuðið, 1979

Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans, 1980

Hjartað býr enn í helli sínum, 1982

Leitin að landinu fagra, 1985

Froskmaðurinn, 1985

Svanurinn, 1991

Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma, 1993

Ævinlega, 1994

Lömuðu kennslukonurnar, 2004

1 1/2 bók Hryllileg saga, 2006

Leitin að barninu í gjánni 2008

Missir 2010

Hin eilífa þrá - lygadæmisaga 2012

Þrír sneru aftur, 2014

Smásögur

Leikföng leiðans, 1963

Hvað er eldi guðs?, 1970

Hinsegin sögur, 1984

Maðurinn er myndavél, 1988

Brúðan, 1988

Jólasögur úr samtímanum, 1995

Vorhænan og aðrar sögur, 2000

Ljóð

Endurtekin orð, 1961

Flateyjar - Freyr (ljóðfórnir), 1974

Stígar, 2001

Barnabækur

Tóta og táin á pabba, 1982

Allir með strætó, 2000

Hundurinn sem þráði að verða frægur, 2002

Annað

Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar, 1997

Eins og steinn sem hafið fágar, 1998

Hugsanabókin. Sjötíu hugsanir, 2002


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is