Tökum við á móti bókum?

Á bókasafninu eru allar geymslur yfirfullar
Á bókasafninu eru allar geymslur yfirfullar

Af og til fáum við fyrirspurnir um hvort við tökum við bókum. Gjarnan fá fólki sem er að fara gegnum dánarbú eða grisja heima hjá sér. Við höfum fullan skilning á að fólki þyki erfitt að henda bókum og vilji gjarnan koma þeim þangað sem aðrir geta notið þeirra. En því miður verðum við oftast að afþakka slík boð.

Fyrir því eru tvær megin ástæður. Í fyrsta lagi er það plássleysi. Hér í Safnahúsinu er allt geymslupláss löngu uppurið, enda rúm 50 ár síðan bókasafnið og skjalasafnið fluttu í þetta húsnæði, sem auk þess hýsir Listasafn Skagfirðinga. Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að grisja bókagjafir og bókakost sem safnast hefur saman í húsinu gegnum tíðina. Geymslur í kjallara eru orðnar yfirfullar, sem og nærgeymslur á annarri hæð. Það er einfaldlega þannig að fyrir hverjar tíu bækur sem koma nýjar inn í húsið þyrfti að farga öðrum tíu bókum. Við grisjun höfum við líka í huga að margar bækur og tímarit úreldast, auk þess sem margt er orðið aðgengilegt á vefnum sem ekki var áður, t.d. á þeim góða vef timarit.is.

Annað sem veldur því að við þurfum að afþakka bókagjafir er vinnan og kostnaðurinn sem þeim fylgja. Starfsfólk okkar þarf að fara gegnum slíkar gjafir, bera eintök saman við þau sem fyrir eru og vega og meta hvort ástæða er til að eiga bækur í safninu. Þetta er mikil og tímafrek vinna. Ef það kemur svo í okkar hlut að farga bókunum felur það í sér vinnu við að undirbúa þær fyrir flokkun og kostnað við förgunina.

Í mörgum tilfellum höfum við fengið leyfi til að setja þær bækur sem ekki nýtast safninu á bókamarkað. Þá er andvirðinu varið til innkaupa á nýjum bókum eða endurnýjunar á bókum sem eru orðnar slitnar, glatast eða skemmast. Nú er staðan sú að við eigum mikið af bókum til sölu á næsta bókamarkaði. Geymslurými sem þeim er ætlað er orðið fullt og við sjáum fram á að geta boðið upp á mikið af „nýju“ og spennandi efni á markaðnum í febrúar á næsta ári. Þess má líka geta að þessar sölubækur eru allar skráðar hjá okkur og því getum við flett upp fyrir fólk sem kemt ekki á markaðinn hvort bækur eru til sem áhugi er á að eignast.

Við viljum benda fólki sem er að losa sig við bækur á að hafa samband við fornbókasölur eins og Sunnlenska bókakaffið, Bókin.is og Bókalind. Einnig mætti athuga með bókamarkaði eins og hjá Hertex á Akureyri. Það við best vitum eru ekki slíkir staðir hér heima í héraði sem taka við notuðum bókum.


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is