Árlegt rithöfundakvöld var haldið í Safnahúsinu sl. fimmtudag. Fimm höfundar mættu til leiks að þessu sinni og kynntu bækur sínar. Aðsóknin var að venju góð og notaleg stemning með upplestri í bland við jólate og konfekt. Góður rómur var gerður að þessum viðburði og voru rithöfundarnir ánægðir með móttökurnar.
Að þessu sinni mættu til leiks þau Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir með bókina Piparmeyjar – Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi, Skúli Thoroddsen með Dorgað í djúpi hugans, Steindór Ívarsson með Herranótt, Valdimar Gunnarsson með Utanveltumaður og Viktor Arnar Ingólfsson með Sumarið við brúna. Kynntu þau þessar nýútkomnu bækur sínar og lásu upp úr þeim. Rithöfundakvöldið er jafnan einn af hápunktunum í viðburðahaldi ársins hjá okkur á bókasafninu og var engin undantekning á því í ár.
Föstudaginn 5. desember næstkomandi er Una Margrét Jónsdóttir svo væntanleg í heimsókn með bók sína Silfuröld revíunnar, þar sem m.a. er fjallað um leiklistarstarf á Sauðárkróki. Í janúar eigum við svo von á Joachim B. Scmidt með bókina Ósmann, en þar er ferjumaðurinn Jón Ósmann aðalsöguhetjan. Ekki er útilokað að fleiri höfundar eigi svo eftir að heimsækja okkur á næstu vikum.
Fleiri ljósmyndir frá rithöfundakvöldinu er að finna á Facebook-síðu bókasafnsins.


