Velheppnuð vettvangsferð safnafólks á Norðurlandi vestra

Á söguslóðum í Kálfshamarsvík
Á söguslóðum í Kálfshamarsvík

Á fimmtudaginn í síðustu viku tók starfsfólk Safnahússins (Héraðsbókasafnsins og Héraðsskjalasafnsins) þátt í vel heppnaðri vettvangsferð safnafólks á Norðurlandi vestra. Ferðin var skipulögð af safnafólki í Austur-Húnavatnssýslu og náði yfir það svæði.

Hópurinn hittist við Héraðsskjalasafn Austur-Húnvetninga og hélt síðan í morgunkaffi í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi þar sem Elín Sigurðardóttir forstöðumaður sagði frá starfsemi safnsins, meðan gestir gæddu sér á kaffi og kleinum. Síðan gafst kostur á að skoða safnið.

Frá Blönduósi var haldið að Þingeyrum, þar sem kirkjan var skoðuð og Björn Magnússon á Hólabaki, formaður sóknarnefndar sagði frá kirkjunni og staðnum. Þaðan var haldið að Þrístöpum og hringinn um Vatnsdal, með leiðsögn Magnús Ólafssonar á Sveinsstöðum. Hann sagði m.a. á eftirminnilegan hátt frá síðustu aftökunni á Íslandi og uppgreftri á beinum þeirra Agnesar og Friðriks. 

Hádegisverður var snæddur í nýuppgerðu Hótel Blönduósi og var gerður góður rómur að hótelinu og matnum. Þá var aftur haldið í rútu og lá leiðin í Kálfshamarsvík, þar sem Ólafur Bernódusson sagði frá byggðinni í víkinni og fleiri áhugaverðum stöðum í nágrenninu. Síðasta stoppið var svo á Skagaströnd þar sem þær Dagný Sigmarsdóttir og Sigrún Lárusdóttir sögðu á lifandi hátt frá Þórdísi spákonu og starfsemi spákonuhofsins. Einnig var boðið upp á veitingar áður en haldið var til baka á Blönduós. 

Um tuttugu manns tóku þátt í þessari ferð og er stefnan að bjóða upp á sambærilegar heimsóknir í Vestur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð, auk þess sem áhugi er fyrir að efla samstarf milli safna á svæðinu.


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is