Verðlaunað fyrir sumarlestur

Verðlaunahafar í sumarlestri 2025, ásamt Kristínu
Verðlaunahafar í sumarlestri 2025, ásamt Kristínu

Í síðustu viku drógum við út heppna vinningshafa í sumarlestri, sem að þessu sinni kallaðist „Lestrarsprettur Lindu landnámshænu“. Þau sem fengu verðlaun voru: Sara Björg Berndsen og Katla Tjörvadóttir í flokki 7 ára og yngri; Svanhildur Ásta Helgadóttir og Andri Fannar Einarsson í flokki 8 ára og eldri. Í verðlaun voru bækurnar Sumardagur í Glaumbæ og Vetrardagur í Glaumbæ eftir Berglindi Þorsteinsdóttur, myndskreyttar af Jérémy Pailler.

Góð þátttaka var í sumarlestrinum að þessu sinni og var því gaman að geta dregið út verðlaun fyrir þátttökuna. Einnig var boðið upp á létta hressingu og upplestur úr nýlegri barnabók. Skagfirðingabúð styrkti verkefnið með veglegum afslætti af verðlaunabókunum og sendum við bestu þakkir fyrir það.

Lestrarátakið er á landsvísu og taka flest almenningsbókasöfn þátt í því. Að þessu sinni var það Linda landnámshæna sem bauð öllum börnum sem eru byrjuð að lesa í ævintýralegt ferðalag um landið sitt – Terra Gallina! Um var að ræða sannkallað lestrarævintýri þar sem börnin heimsóttu stórkostlega staði eins og borgina Santíeggó, sigldu yfir Hænusund, könnuðu undur og ævintýri í Hanaoi og enduðu ferðina á sólríkri strönd í Hanama. Á bókasafninu fengu þau vegabréf og söfnuðu límmiðum.

Markmiðið var að lesa í 15 mínútur á dag og merkja þá við hvert barnið væri komið á leið Lindu landnámshænu um Terra Gallina. Við fjórða hvern lestur höfðu börnin þar með lesið í klukkustund og lentu á stjörnu og fengu þá límmiða á bókasafninu.

Við þökkum kærlega fyrir góða þátttöku í sumarlestrinum og vonum að börnin verði jafn dugleg að lesa í skólanum og heima í vetur. Verðlaunahöfum óskum við til hamingju og vonum að þau hafi gaman af bókinni sem þau fengu í verðlaun.


Svæði

Héraðsbókasafn Skagfirðinga  |  Safnahúsinu við Faxatorg  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6050  bokasafn@skagafjordur.is