Enn á ný stendur Safnahús Skagfirðinga fyrir vísnakeppni í aðdraganda Sæluviku og telst umsjónarmanni til að nú sé komið að þeirri 43. en keppninni var komið á árið 1976. Reglurnar eru sem fyrr einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu.
Að þessu sinni var umsjónarmaður óvenju frjálslegur og leyfði fyrripartasmiðum að ráða efnistökum annars fyrripartsins en hörð fyrirmæli fengu þeir um að setja eitthvað saman sem viðkemur ferðamönnum og Skagafirði.
Þá fáið þið lesendur góðir, að spreyta ykkur á því að setja saman vísu um það hvernig þið sjáið fyrir ykkur persónu/r úr Sturlungasögu heimsækja Skagafjörð eða Skagfirðinga í nútímanum. Þá er um að gera að láta ímyndunaraflið ráða för og láta vaða á eina stöku.
Vetur hopar, vorið nær
völdum næstu daga
Fjallahringur fagur hér
ferðalanga tælir
Vorið skilið vísu á
í veðurblíðu sinni
Ekki virðist amalegt
yfir fjörð að líta
Freystandi er að láta einn fyrripart í viðbót koma í tilefni sveitarstjórnakosninga.
Kosningarnar koma brátt
með kosti sína og galla.
Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir bestu Sturlungavísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.
Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 25. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dunefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni, ef það fylgir ekki með, áður en vísunar fara til dómnefndar.
Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 29. apríl við setningu Sæluviku Skagfirðinga, í Safnahúsinu á Sauðárkróki.